Böðvar Þórisson flytur fyrirlestur um verkefni sitt til meistaraprófs í líffræði í dag, 1. febrúar 2013 klukkan 17:10 í Öskju í Háskóla Íslands, stofu 132. Fyrirlesturinn ber heitið Farhættir og lýðfræði sandlóu Charadrius hiaticula.
Farfuglar lifa tvöföldu lífi, annars vegar á varpstöðum og hins vegar á vetrarstöðum. Gæði vetrarstöðva geta haft keðjuverkandi áhrif á varpstöðvum og öfugt. Erfitt hefur reynst að skoða þessi áhrif þar sem fylgjast þarf með einstaklingum á varp- og vetrarstöðum en komutími fugla á varpstöðvar getur þó gefið vísbendingar um áhrif vetrarstövða. Hjá mörgum tegundum hefur fundist jákvæð fylgni á milli komutíma og varpárangurs. Markmið með þessari rannsókn var að kanna tengsl komutíma og varpárangurs hjá sandlóu Charadrius hiaticula.
Sandlóa er farfugl sem er með vetrarstöðvar í suður Evrópu og vestur Afríku. Hún kemur til landsins um miðjan apríl og toppur er í
fjölda um mánaðarmótin apríl-maí. Varp hefst að jafnaði um miðjan maí og verpur hún lítt grónum og opnum svæðum. Könnuð voru tengsl komutíma og varpárangurs sandlóu á Vestfjörðum og Suðurlandi. Einnig var útbreiðsla hennar, utan varptíma erlendis, kortlögð og komutími fugla frá mismunandi vetrarstöðvum borinn saman.
Leiðbeinendur: Tómas Grétar Gunnarsson og Arnþór Garðarsson
Prófdómari: Guðmundur A. Guðmundsson hjá Náttúrufræðistofnun Íslands
Náttúrustofa Vestfjarða | Aðalstræti 12 | 415 Bolungarvík | kt 610397 2209 | sími: 456 7005 | netfang: nave [hjá] nave.is