Um stofuna
Náttúrustofa Vestfjarða hóf starfsemi í ársbyrjun 1997. Hún er alhliða rannsóknar- og þjónustustofnun í náttúrufræðum á Vestfjörðum. Náttúrustofan starfar eftir lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands og Náttúrustofur og er rekin af sveitarfélögum á Vestfjörðum með stuðningi ríkisins. Verkefni náttúrustofunnar er öflun og miðlun upplýsinga um náttúru Vestfjarða. Einnig er hlutverk NAVE að gera viðeigandi gögn aðgengileg þeim sem á þurfa að halda. Náttúrustofa Vestfjarða tekur að sér margvísleg verkefni á þessu sviði fyrir sveitarfélög, fyrirtæki, stofnanir og einkaaðila.
Hlutverk stofunnar
- að safna gögnum, varðveita heimildir um náttúrufar og stunda vísindalegar náttúrurannsóknir, einkum í þeim landshluta þar sem náttúrustofan starfar,
- að stuðla að æskilegri landnýtingu og náttúruvernd og veita fræðslu um umhverfismál og náttúrufræði og aðstoða við gerð náttúrusýninga,
- að veita náttúruverndarnefndum á starfssvæði stofunnar upplýsingar og ráðgjöf á verksviði stofunnar samkvæmt ákvörðun stjórnar náttúrustofu hverju sinni,
- að veita ráðgjöf á verksviði stofunnar, sinna rannsóknum og sjá um vöktun gegn greiðslu að beiðni sveitarfélaga, ríkis eða stofnana þeirra, einstaklinga, fyrirtækja eða annarra aðila,
- að annast almennt eftirlit með náttúru landsins, sbr. 7. gr. náttúruverndarlaga, nr. 44/1999, einkum í þeim landshluta þar sem NAVE starfar; Náttúruvernd ríkisins skal gera samning um slíkt eftirlit við náttúrustofur sem staðfestur er af ráðherra. Heimilt er náttúrustofu að gerast aðili að sýningarsafni, en fjárhagur slíks safns og stofunnar skal vera aðskilinn.