Stórir og smáir gestir
Náttúrustofunni hafa borist fregnir af bæði stórum og smáum gesti. Glóbrystingur (Erithacus rubecula) hefur gert sig heimakominn í garði í Bolungarvík frá byrjun árs. Húsráðendur þau Arngrímur Kristinsson og Margrét Sæunn Hannesdóttir hafa gert sitt besta til að dekra við krílið og tók Arngrímur þessar myndir fyrir okkur.
Eins og sést á myndunum er glóbrystingur auðþekkjanlegur. Bringan og andlitið eru rauðgul ásamt því að hann er smár, um 14 cm að lengd og vænghafið um 20-22 cm. Glóbrystingur er algengur haustflækingur á landinu þótt við fáum ekki oft fregnir af komu hans á okkar slóðir. Hann lifir oft af veturinn og hefur verpt á landinu. Þótt megin fæða hans séu ýmis smádýr étur hann einnig ber og fræ frá hausti fram á vor. Þegar hann flækist til landsins sækir hann því í garða þar sem fuglum er gefið.
Hinn gesturinn er snæugla sem Þórður Sigurðsson og fjölskylda sáu í Súðavík í byrjun febrúar. Lengd snæugla er 53-66 cm og vænghafið 140-170 cm og er kvenfuglinn jafnan stærri. Tegundin verpti af og til í Ódáðahrauni á árunum 1932-1974 og segir Sigurður Ægisson eitt til tvö hreiður hennar hafa fundist nær árlega á Vestfjörðum síðan árið 2008. Snæuglan er hánorrænn fugl sem hér á landi hefur haldið sig mest á hálendi og heiðum þótt af og til sjáist hún í byggð. Það var einmitt á Steingrímsfjarðarheiði sem undirrituð og fjölskylda sáu snæuglu síðasta vor.
Við viljum þakka þeim fuglavinum sem láta okkur vita að komu flækinga. Jafnframt hvetjum við aðra til að láta í sér heyra sjái þeir áhugaverða fugla til dæmis með að senda Cristian (gallo@nave.is) eða Ingrid (ingrid@nave.is) línu.
Kristjana Einarsdóttir
Guðmundur P. Ólafsson. 1998. Fuglar í náttúru Íslands. Mál og Menning. Reykjavík.
Cornell Lab. Sótt 11. mars 2024 af https://www.allaboutbirds.org/guide/European_Robin/lifehistory#food
Jóhann Óli Hilmarsson. 2000. Íslenskur fuglavísir. Iðunn. Reykjavík.
Sigurður Ægisson. 2020. Íslensku fuglarnir og þjóðtrúin. Bókaútgáfan Hólar. Reykjavík.