Kóngasvarmi á Flateyri
Nemendur Grunnskóla Önundarfjarðar fundu kóngasvarma (Agrius convolvuli) á skólalóðinni þann 9. september síðastliðinn. Fiðrildið var enn lifandi og gerðu krakkarnir allt sem þau gátu til að halda því á lífi. Ekki er skrítið að það hafi ekki tekist til lengdar því eftir að fiðrildi kóngasvarma skríða úr púpu lifa þau einungis í 10-30 daga og hluta þess tíma hafði fiðrildið notað til að ferðast til Flateyrar. Krakkarnir gáfu Náttúrustofunni fiðrildið og fór Cristian til að taka við því. Með í för var hluti skordýrasafns stofunnar sem kóngasvarmanum verður bætt í. Aðrir krakkar munu því geta skoðað hann í framtíðinni þegar þeir koma í skólaheimsókn. Fiðrildið er stórt en vænghaf tegundarinnar verður allt að 12 cm og því gaman að bera það saman við íslensku fiðrildin.
Venjulega berast til landsins 1-2 kóngasvarmar á ári en árið 1995 var þó metár þegar 15 fundust. Þrátt fyrir að þeir hafi fundist í öllum landshlutum hafa langflestir sést á sunnanverðu landinu (Erling Ólafsson og Hálfdán Björnsson 1997). Árið 2013 bárust Náttúrustofunni 2 kóngasvarmar sem fundust á Þingeyri en síðan þá höfum við ekki frétt af neinum á Vestfjörðum fyrr en nú.
Upplýsingar um komur kóngasvarma fengnar úr
Erling Ólafsson & Hálfdán Björnsson 1997. Fiðrildi á Íslandi 1995. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 32. 136 bls.