Kóngasvarmi á Flateyri
Nemendur Grunnskóla Önundarfjarðar fundu kóngasvarma (Agrius convolvuli) á skólalóðinni þann 9. september síðastliðinn. Fiðrildið var enn lifandi og gerðu krakkarnir allt sem þau gátu til að halda því á lífi. Ekki er skrítið að það hafi ekki tekist til lengdar því eftir að fiðrildi kóngasvarma skríða úr púpu lifa þau einungis í 10-30 daga og hluta þess tíma hafði fiðrildið notað til að ferðast til Flateyrar. Krakkarnir gáfu Náttúrustofunni fiðrildið og fór Cristian til að taka við því. Með í för var hluti skordýrasafns stofunnar sem kóngasvarmanum verður bætt í. Aðrir krakkar munu því geta skoðað hann í framtíðinni þegar þeir koma í skólaheimsókn. Fiðrildið er stórt en vænghaf tegundarinnar verður allt að 12 cm og því gaman að bera það saman við íslensku fiðrildin.
Venjulega berast til landsins 1-2 kóngasvarmar á ári en árið 1995 var þó metár þegar 15 fundust. Þrátt fyrir að þeir hafi fundist í öllum landshlutum hafa langflestir sést á sunnanverðu landinu (Erling Ólafsson og Hálfdán Björnsson 1997). Árið 2013 bárust Náttúrustofunni 2 kóngasvarmar sem fundust á Þingeyri en síðan þá höfum við ekki frétt af neinum á Vestfjörðum fyrr en nú.
Upplýsingar um komur kóngasvarma fengnar úr
Erling Ólafsson & Hálfdán Björnsson 1997. Fiðrildi á Íslandi 1995. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 32. 136 bls.
Glókollur verpir í Tunguskógi
Glókollur hefur sést nokkrum sinnum á Vestfjörðum síðustu ár. Fuglarnir hafa sést jafnt að sumri sem vetri en varp hefur ekki verið staðfest á svæðinu fyrr en nú. Hlynur Reynisson var á göngu í Tunguskógi í byrjun ágúst þegar hann fann 2 dauða unga sem höfðu fallið úr hreiðri, líklega í roki. Margir glókollar sáust á svæðinu.Glókollur er nýjasti og jafnframt minnsti varpfugl landsins en varp hans var fyrst staðfest sumarið 1999 en fram að því hafði hann lengi verið árviss haustflækingur.Við erum þakklát öllum sem senda okkur fuglafréttir. Hægt er að hringja í Cristian eða Ingrid (númer á nave.is) eða senda okkur línu á facebook síðu stofunnar.
Read MoreBjargfuglavöktun á Vestfjörðum
Starfsmenn Náttúrustofunnar störtuðu fuglavinnu sumarsins með uppsetningu eftirlitsmyndavéla við Látrabjarg. Myndavélar á Látra- og Hornbjargi eru notaðar við Bjargfuglavöktun en á hverri klukkustund taka vélarnar mynd af sama hluta bjargsins og fuglunum sem þar eru.
Read MoreHeiðlóa og aðrir farfuglar
Þrjár heiðlóur sáust við Haganes í Skutulsfirði, laugardaginn 20 apríl og í vikunni sáust einnig tveir hrossagaukar. Undanfarið hefur bæst við þá stelka og hettumáfa sem höfðu vetursetu í firðinum. Í Dýrafirði hafa 15 helsingjar sést undanfarið en Bernarður Guðmundsson sá þá fyrst 8 apríl. Þá hefur álftum og grágæsum verið að fjölga víðsvegar á Vestfjörðum. Read MoreStórir og smáir gestir
Náttúrustofunni hafa borist fregnir af bæði stórum og smáum gesti. Glóbrystingur (Erithacus rubecula) hefur gert sig heimakominn í garði í Bolungarvík frá byrjun árs. Húsráðendur þau Arngrímur Kristinsson og Margrét Sæunn Hannesdóttir hafa gert sitt besta til að dekra við krílið og tók Arngrímur þessar myndir fyrir okkur.
Eins og sést á myndunum er glóbrystingur auðþekkjanlegur. Bringan og andlitið eru rauðgul ásamt því að hann er smár, um 14 cm að lengd og vænghafið um 20-22 cm. Glóbrystingur er algengur haustflækingur á landinu þótt við fáum ekki oft fregnir af komu hans á okkar slóðir. Hann lifir oft af veturinn og hefur verpt á landinu. Þótt megin fæða hans séu ýmis smádýr étur hann einnig ber og fræ frá hausti fram á vor. Þegar hann flækist til landsins sækir hann því í garða þar sem fuglum er gefið.
Hinn gesturinn er snæugla sem Þórður Sigurðsson og fjölskylda sáu í Súðavík í byrjun febrúar. Lengd snæugla er 53-66 cm og vænghafið 140-170 cm og er kvenfuglinn jafnan stærri. Tegundin verpti af og til í Ódáðahrauni á árunum 1932-1974 og segir Sigurður Ægisson eitt til tvö hreiður hennar hafa fundist nær árlega á Vestfjörðum síðan árið 2008. Snæuglan er hánorrænn fugl sem hér á landi hefur haldið sig mest á hálendi og heiðum þótt af og til sjáist hún í byggð. Það var einmitt á Steingrímsfjarðarheiði sem undirrituð og fjölskylda sáu snæuglu síðasta vor.
Við viljum þakka þeim fuglavinum sem láta okkur vita að komu flækinga. Jafnframt hvetjum við aðra til að láta í sér heyra sjái þeir áhugaverða fugla til dæmis með að senda Cristian (gallo@nave.is) eða Ingrid (ingrid@nave.is) línu.
Kristjana Einarsdóttir
Guðmundur P. Ólafsson. 1998. Fuglar í náttúru Íslands. Mál og Menning. Reykjavík.
Cornell Lab. Sótt 11. mars 2024 af https://www.allaboutbirds.org/guide/European_Robin/lifehistory#food
Jóhann Óli Hilmarsson. 2000. Íslenskur fuglavísir. Iðunn. Reykjavík.
Sigurður Ægisson. 2020. Íslensku fuglarnir og þjóðtrúin. Bókaútgáfan Hólar. Reykjavík.
Read More