
Teistu talningar í Vigur og Æðey
Á fyrstu tveimur vikum maímánaðar lauk Náttúrustofa Vestfjarða þriðju árlegu athuguninni á teistubyggðum í Vigur. Í ár var Æðey einnig bætt við vöktunarverkefnið sem hófst árið 2022 og voru fjórar talningar framkvæmdar í Vigur og tvær í Æðey.
Áður en varp hefst safnast teistur (Cepphus grylle) þétt saman við varpstöðvarnar, bæði í dagrenningu og ljósaskiptum, og eiga í samskiptum sín á milli. Athyglisvert er að fylgjast með atferli fuglanna og vera vitni af hundruðum tísta, kafana, eltingaleikja og gusugangi. Á sama tíma býður þessi samsöfnun teistanna upp á möguleika til talninga.

Í Vigur er að öllum líkindum stærsti varpstofn teistu á landinu með að hámarki 779 pör þetta árið. Þrátt fyrir að talan hafi minnkað eilítið frá þeim 835 pörum sem sáust í fyrra gæti munurinn einnig orsakast af náttúrulegu fráviki í mætingu fuglanna. Þekkt er að meðal annars geti veður og tímasetning sjávarfalla haft áhrif á mætingu teistanna. Búast má við dálitlum sveiflum í langtíma vöktunarverkefnum en eftir lengri tíma mun það koma í ljós hvort stofninn sé stöðugur, í vexti eða hvort fækkun sé í honum.
Í Æðey var einnig töluverður fjöldi teista eða um 667 pör en árið 2000 var áætlað að um 500 pör væru í eyjunni. Ísafjarðardjúp, með svo stóra varpstofna í eyjunum tveimur, er því augljóslega ákaflega mikilvægt fyrir teistur á landinu. Tegundin er á Válista íslenskra fugla sem tegund í hættu vegna marktækrar fækkunar síðustu áratugi.





Við viljum þakka Alexíusi Jónassyni fyrir góðlátlegt leyfi til að telja í Æðey og ábúendum Vigur þeim Gísla Jónssyni, Felicity Aston og Þráni Frey fyrir að bjóða okkur velkomin í enn eitt skiptið.
Read More