Talningar á teistu
Í apríl heimsóttu starfsmenn Náttúrustofu Vestfjarða eyjuna Vigur. Markmið ferðarinnar var að meta fjölda varppara teista sem var gert með því að telja teistur í pörunaratferli.
Á vorin safnast teistur saman, bæði stuttu eftir birtingu að morgni og um sólsetur að kvöldi, í návígi við varpstöðvar til að þess að sinna tilhugalífinu. Það er einstök upplifun að fylgjast með þessum annars hljóðláta fugli iða, dansa og skrækja hvor á annann á meðan atferlið fer fram. Sérstaklega var mikið af teistu við íbúðarhúsin á eyjunni, en þar fylltist raunverulega fjaran af iðandi teistum.