
Vetrarfuglatalningu lokið
Nú hefur árlegu vetrarfuglatalningum á Vestfjörðum verið lokið. Talningar á fuglum yfir vetrartímann hófust 1952 og er þetta því ein lengsta samfellda vöktun sem stunduð hefur verið hér á landi. Náttúrufræðistofnun Íslands sér um verkefnið í samstarfi við Náttúrustofur landsins, en talningar eru að mestu framkvæmdar af fuglaáhugamönnum í sjálfboðavinnu.
Markmið vetrarfuglatalninga er að safna upplýsingum um fjölda og dreifingu fugla að vetrarlagi. Starfsmenn Náttúrustofu Vestfjarða töldu fugla á Patreksfirði, Tálknafirði, Bíldudal, Dýrafirði, Önundarfirði, Súgandafirði, Skutulsfirði, Skötufirði og í Bolungarvík. Í Álftafirði sáu Hilmar Pálsson og Guðbjörg Skarphéðinsdóttir um talningar og í Steingrímsfirði töldu Matthías Sævar Lýðsson og Hafdís Sturlaugsdóttir. Viljum við þakka þeim innilega fyrir þá vinnu.
Náttúrufræðistofnun tekur saman niðurstöður talninga fyrir landið allt og má nálgast þær á heimasíðu þeirra: https://www.ni.is/greinar/vetrarfuglatalningar-nidurstodur

Í ár voru skráðir tæplega 20 þúsund fuglar af 38 tegundum á Vestfjörðum. Mestur var fjöldi fugla í Skutulsfirði og Dýrafirði, þar sáust yfir 2 þ. fuglar. Eins og áður var æðarfuglinn lang algengastur með um 9 þ. skráningar, næst kom snjótittlingur með um 2 þ. skráningar. Mest var af fuglum þeirra tegunda sem teljast algengar á Íslandi yfir vetrartímann. Af óalgengum vetrartegundum sem sáust í ár má fyrst nefna hringmáf, flæking frá N Ameríku, sem hélt til í höfninni á Suðureyri (mynd 2).

Þetta var í fyrsta sinn sem hringmáfur var skráður á Vestfjörðum! Tvær tildrur sáust í fæðuleit á leirum við Hvamm í Dýrafirði. Tildra er fargestur og sést hér á vorin og haustin, einnig dvelja nokkur hundruð tildrur á landinu allan veturinn í fjörum suðvestanlands en þær eru þá ekki algengar hér á Vestfjörðum.

Tvær grágæsir sáust á Suðureyri og ein í Súðavík. Tveir æðarkóngar sáust við Hvítanes og einn í Dýrafirði. Þá voru skráðir 39 svartþrestir og 119 starar, en þessum tegundum hefur fjölgað mikið á Vestfjörðum síðustu ár.

Árlegar talningar nýtast til að meta stærð og útbreiðslu á einstökum fuglastofnum. Til dæmis höfum við hér tekið saman fjölda hávella og hrafna á Vestfjörðum síðustu 12 ár. Fjöldi hávella fækkaði hratt eftir 2015 en hefur verið stöðugur í talningum síðan þá. Lítill fjöldi árið 2010 stafar líklega af því að það árið var eitt af þremur talningarsvæðum í Súgandafirði ekki talið. Hin árin var það svæði í Súgandafirði þar sem mestur fjöldi tegundarinnar var skráður.

Fjöldi hrafna á svæðinu er nokkuð stöðugur. En þó er áhugavert að virða fyrir sér breytingar milli áranna 2019 og 2020. Þá fækkar hröfnum úr 100 í 23 í Bolungarvík en fjölgar samtímis í Skutulsfirði um 50 fugla. Þetta sama ár opnaði móttökustöð lífræns efnis á endurvinnslustöðinni Funa á Ísafirði. Mikill fjöldi hrafna hefur haldið til í kringum stöðina síðan hún opnaði og ekki er hægt að útiloka að stöðin hafi dregið að hrafna úr nærliggjandi svæðum eins og þá sem dvöldu í Bolungarvík.
