Rannsóknir í tengslum við vegagerð um Teigskóg
Náttúrustofan hefur lengi unnið í rannsóknum í tengslum við umhverfismat vegna fyrirhugaðra vegaframkvæmda frá Bjarkalundi að Skálanesi, svokallaða Teigskógarleið. Í tengslum við framkvæmdarleyfi Reykhólahrepps vegna veglagningarnar voru gerðir ýmsir skilmálar. Einn af þeim skilmálum var að halda úti vöktun á ákveðnum þáttum í tengslum við áhrif vegagerðarinnar á strauma og dýralíf. Náttúrustofan sá um að taka saman áætlun um þá vöktun og fékk í lið með sér ýmsa sérfræðinga innan stofnanna til að búa til áætlanir, svosem Náttúrufræðistofnun Íslands, Landgræðsluna, Hafrannsóknarstofnun, Skógræktina og Umhverfisstofnun.
Verkefnið er yfirgripsmikið og hafa verið unnar töluverðar rannsóknir til að skrá grunnstöðu svæðisins og náttúru þess fyrir framkvæmdir sem hægt er svo seinna meir að vakta.
Þær rannsóknir sem stofan hefur verið að sinna undafarið ár eru ma: fuglavaktanir (strandfuglar og andfuglar), mælingar á lífmassa birki, vistgerðakort, gróðurmælingar ásamt smádýralífi, fjörurannsóknir (og þar sérstaklega tekin snið á marhálmssvæðum), botndýrarannsóknir, næringarefnamælingar og mælingar á blaðgrænu (Chl-a). Einnig var unnin undirbúningsvinna fyrir endurheimt staðargróðurs og miklar fornleifaskráningar og fornleifauppgreftir.
Hvítur Snjótittlingur í Súðavík
Sjaldgæfur hvítur snjótittlingur hefur haldið til í Súðavík síðastliðnar tvær vikur í föruneyti 400 fugla sömu tegundar.
Fyrir utan nokkrar dökkar skellur á vængjum og baki er fuglinn nánast alhvítur, fætur appelsínugulir ólíkt dökkum fótleggjum tegundarinnar og augun dökk. Af þessu má áætla að hvíti liturinn stafi ekki af albínisma sem orsakast af algjörum skorti litarefnisins melanín, en það veldur alhvítum líkama, ljósbleikum fótleggjum og rauðum augum. Hvíti liturinn stafar líklega af leukisma (áður fyrr oft nefndur hálf-albínismi) sem dregur úr getu húðar, fjaðra og í einhverjum tilfellum goggs til að taka upp melanín sem veldur brúnum og svörtum lit, en hefur engin áhrif á carotenoid sem veldur gulum og appelsínugulum lit. Leukismi hefur engin áhirf á lit augna.
Leukismi er algengari meðal fugla en albínismi. Leukismi hefur mörg stig og birtingarform, allt frá nokkrum hvítum skellum yfir í nær alhvítan líkama.
Heimildir:
Izquierdo, L., Thomson, R. L., Aguirre, J. I., Díez‐Fernández, A., Faivre, B., Figuerola, J., & Ibáñez‐Álamo, J. D. (2018). Factors associated with leucism in the common blackbird Turdus merula. Journal of Avian Biology, 49(9), e01778.
Van Grouw, H., Mahabal, A., Sharma, R. M., & Thakur, S. (2016). How common is albinism really? Colour aberrations in Indian birds reviewed.
Vetrarfuglatalningu lokið
Nú hefur árlegu vetrarfuglatalningum á Vestfjörðum verið lokið. Talningar á fuglum yfir vetrartímann hófust 1952 og er þetta því ein lengsta samfellda vöktun sem stunduð hefur verið hér á landi. Náttúrufræðistofnun Íslands sér um verkefnið í samstarfi við Náttúrustofur landsins, en talningar eru að mestu framkvæmdar af fuglaáhugamönnum í sjálfboðavinnu.
Markmið vetrarfuglatalninga er að safna upplýsingum um fjölda og dreifingu fugla að vetrarlagi. Starfsmenn Náttúrustofu Vestfjarða töldu fugla á Patreksfirði, Tálknafirði, Bíldudal, Dýrafirði, Önundarfirði, Súgandafirði, Skutulsfirði, Skötufirði og í Bolungarvík. Í Álftafirði sáu Hilmar Pálsson og Guðbjörg Skarphéðinsdóttir um talningar og í Steingrímsfirði töldu Matthías Sævar Lýðsson og Hafdís Sturlaugsdóttir. Viljum við þakka þeim innilega fyrir þá vinnu.
Náttúrufræðistofnun tekur saman niðurstöður talninga fyrir landið allt og má nálgast þær á heimasíðu þeirra: https://www.ni.is/greinar/vetrarfuglatalningar-nidurstodur
Í ár voru skráðir tæplega 20 þúsund fuglar af 38 tegundum á Vestfjörðum. Mestur var fjöldi fugla í Skutulsfirði og Dýrafirði, þar sáust yfir 2 þ. fuglar. Eins og áður var æðarfuglinn lang algengastur með um 9 þ. skráningar, næst kom snjótittlingur með um 2 þ. skráningar. Mest var af fuglum þeirra tegunda sem teljast algengar á Íslandi yfir vetrartímann. Af óalgengum vetrartegundum sem sáust í ár má fyrst nefna hringmáf, flæking frá N Ameríku, sem hélt til í höfninni á Suðureyri (mynd 2).
Þetta var í fyrsta sinn sem hringmáfur var skráður á Vestfjörðum! Tvær tildrur sáust í fæðuleit á leirum við Hvamm í Dýrafirði. Tildra er fargestur og sést hér á vorin og haustin, einnig dvelja nokkur hundruð tildrur á landinu allan veturinn í fjörum suðvestanlands en þær eru þá ekki algengar hér á Vestfjörðum.
Tvær grágæsir sáust á Suðureyri og ein í Súðavík. Tveir æðarkóngar sáust við Hvítanes og einn í Dýrafirði. Þá voru skráðir 39 svartþrestir og 119 starar, en þessum tegundum hefur fjölgað mikið á Vestfjörðum síðustu ár.
Árlegar talningar nýtast til að meta stærð og útbreiðslu á einstökum fuglastofnum. Til dæmis höfum við hér tekið saman fjölda hávella og hrafna á Vestfjörðum síðustu 12 ár. Fjöldi hávella fækkaði hratt eftir 2015 en hefur verið stöðugur í talningum síðan þá. Lítill fjöldi árið 2010 stafar líklega af því að það árið var eitt af þremur talningarsvæðum í Súgandafirði ekki talið. Hin árin var það svæði í Súgandafirði þar sem mestur fjöldi tegundarinnar var skráður.
Fjöldi hrafna á svæðinu er nokkuð stöðugur. En þó er áhugavert að virða fyrir sér breytingar milli áranna 2019 og 2020. Þá fækkar hröfnum úr 100 í 23 í Bolungarvík en fjölgar samtímis í Skutulsfirði um 50 fugla. Þetta sama ár opnaði móttökustöð lífræns efnis á endurvinnslustöðinni Funa á Ísafirði. Mikill fjöldi hrafna hefur haldið til í kringum stöðina síðan hún opnaði og ekki er hægt að útiloka að stöðin hafi dregið að hrafna úr nærliggjandi svæðum eins og þá sem dvöldu í Bolungarvík.
Umfangsmikil rannsókn á tíðni og álagi sjávarlúsa á villtum laxfiskum
Rannsókn á tíðni og álagi laxa- og fiskilúsa á villtum laxfiskum fékk veglegan styrk í ár og rannsóknir hefjast á næstu dögum. Árið 2017 var gerð umfangsmikil rannsókn á sjávarlúsum á villtum laxfiskum á Vestfjörðum, rannsóknin náði til Patreksfjarðar, Tálknafjarðar, Arnarfjarðar, Dýrafjarðar, Önundarfjarðar, Súgandafjarðar og Nauteyri og Kaldalón í Ísafjarðardjúpi. Í ár verður farið í þessa sömu firði auk Reyðarfjarðar á Austfjörðum. Umhverfissjóður sjókvíaeldis hefur styrkt þessar rannsóknir. Hægt er að nálgast skýrslu um rannsóknina á heimasíðu Náttúrustofunnar „Vöktun sjávarlúsa á villtum laxfiskum á Vestfjörðum 2017 NV nr. 32-18“ auk rannsóknar sem gerð var í Patreksfirði á síðasta ári „Vöktun sjávarlúsa á villtum laxfiskum í Patreksfirði 2019 NV nr. 19-19“ en Rannsókna- og Nýsköpunarsjóður Vestur-Barðarstrandarsýslu styrkti þá rannsókn.
Read MoreViðtöl við fyrirtæki um umhverfismál
Æskilegt væri því að kynna vottunina betur. Þá gætu fyrirtæki geti nýtt sér hana betur við markaðsetningu. Einnig mættu sveitarfélög flagga eða merkja sín svæði betur til að vekja athygli ferðamanna þegar þeir koma inn á EarthCheck vottað svæði. Inni á Vestfirdir.is eru upplýsingar um vottunina og almennt um umhverfismál á facebook, Náttúrulega Vestfirðir. En meira þarf auðsjáanlega til að ná til fyrirtækja, almennings og ferðamanna um það hvað þýðir þessi vottun fyrir Vestfirði. Von er á heildarniðurstöðum í haust.
Read MoreSkógarmítlar fundust á ketti á Ísafirði
Þeir valda oftast ekki skaða og það finnst lítið fyrir þeim þótt þeir komi sér kirfilega fyrir í efsta lagi húðarinnar. Ef hins vegar mítillinn hefur bitið áður og ber með sér lyme-sjúkdóm þá er æskilegt að leita læknis eins fljótt og hann finnst. Einkenni sýkingar er roði í húðinni í kringum mítilinn. Þetta er þó afar sjaldgæft.
Fréttablaðið 18. júní 2020 vitnar í eldra viðtal: Mikilvægt er að beita réttum handtökum þegar skógarmítlar eru fjarlægðir. Þórólfur Guðnason segir að best sé að nota flísatöng. „Það er oft talað um að það eigi að hella á hann ýmsum efnum, steinolíu eða kveikja í honum og fleira. Það er algert bull. Frekar á að ná honum með venjulegri flísatöng og þá þarf að ná undir nefið á honum. Klípa þar og lyfta honum beint upp. Það er aðferðin til að ná honum rétt út,“ Ítrekaði hann í sama viðtali að aldrei hefði verið staðfest smit hér á landi vegna bits. Ef hluti mítilsins verður eftir i húðinni getur myndast sýking.
Meira um mítla má finna á Vísindavef Háskóla Íslands eða í ágætri samantekt frá Náttúrustofu Norð-Austurlands. Fólk skiptist líka á sögum og myndum á facebook undir fyrirsögninni mítla-vaktin . í Grein á NÍ má finna fleiri myndir.
Read MoreSmáhveli rak á fjöru í Hænuvík
Helstu einkenni grindhvalsins sjást ekki vel af þessum myndum, lengdin er óskilgreind og talsverðir áverkar eru sjáanlegir á búknum. Ennið er kúpt, hvalurinn dökkur yfirlitum og það sést vel í nokkrar smáar tennur en hræið líkist mest grindhval. Bægsli á kvið grindhvala geta verið um 1/3 af lengd dýrsins. Bakhornið sést ekki. Ljós blettur framan við kviðlæg bægsli er heldur ekki auðsjánlegur. Latneska heitið á grindhval er Globicephala melas sem þýðir svo sem hinn dökki kúluhaus. Ennið nota hvalirnir til að nema hljóð og greina það. Hauskúpan er af þessum sökum ósamhverf. Þeir senda frá sér alls kyns hljóð og nema bergmálið til að staðsetja bráð. Þeir lifa á smokkfiski, fiski og öðrum sjávardýrum. Vanalega fara grindhvalir margir saman í vöðum og er algengt að sjá þá inni á fjörðum eða utar í kringum landið vaða ölduna.
Read MoreFornleifarannsóknir í Arnarfirði 2020
Í ágúst var haldið áfram með fornleifarannsóknina Arnarfjörður á miðöldum fyrir styrki eins og greint var frá í vor. Við rannsóknina unnu fornleifafræðingarnir Margrét Hrönn Hallmundsdóttir, Kristín Sylvía Ragnarsdóttir, Gunnar Grímsson, James McGovern, Kate Fitzpatrick og Jonathan Buttery auk aðstoðar frá Herdísi Friðriksdóttur.
Þetta árið var lögð áhersla á ósvaraðar spurningar, ljúka vinnu við skálann á Auðkúlu, rannsaka tóft rétt sunnan við skálann, staðsetja líklegan skála í túninu á Hrafnseyri og kortleggja öll ummerki fornleifa í Arnarfirði með drónamyndum og hitamyndavél.
Allt svæðið var fyrst opnað og hreinsað. Við uppgröftinn komu í ljós margar stoðarholur, bæði innan skála og utan. Að innan fundust þær undir gólflaginu sem var tekið upp árið 2019. Stoðarholurnar segja til um það hvernig þakinu var haldið uppi. Stoðarholur sem fundust utan skála voru líklega eftir stoðir til að styrkja veggi. Veggir skálans voru gerðir greinilegri og líklegur eldri inngangur fannst þar sem op inn í viðbygginguna er staðsett nú. Lokið var við að grafa upp skálann og gengið var frá honum með torfi á veggjum.
Rétt sunnan við skálann var grafið upp jarðhýsi. Í því var stór steinhlaðinn ofn sem var alsettur eldsprungnum steinum og kolum, gólflag var í húsinu og var það þéttast við miðju. Stoðarholur var einnig að finna við suðurvegg og ein við norðurvegg en þar voru einnig nýttir stoðasteinar. Jarðhýsið var grafið upp að fullu og því lokað í enda sumars með torfi á veggjum.
Borkjarnarannsóknir frá árinu 2019 leiddu í ljós að einhverskonar mannvirki væri að finna í túninu neðan við kirkjuna á Hrafnseyri. Tveir könnunarskurðir voru grafnir til að kanna hverskonar mannvirki þetta gætu verið. Uppgröftur sýndi að þar væri að finna stóran skála. Skálinn fannst nokkrum metrum frá öskuhaug og jarðhýsi sem hafði verið grafið þar áður. Í könnunarskurðunum kom í ljós stór og þykkur veggur og svart gólflag. Skálinn er að öllum líkindum mjög stór því gólfið sást í báðum skurðum. Skálinn er því að minnsta kosti 17 metra langur.
Myndataka með dróna og hitamyndavél voru notaðar við kortlagningu fornleifanna í Arnarfirði. Námsmaður á nýsköpunarstyrk (sjá fyrri frétt), Gunnar Grímsson staðsetti áður þekktar og óþekktar minjar sem sjást illa á yfirborðinu. Með drónanum var einnig búið til þrívíddarlíkan af uppgraftarsvæðinu á Auðkúlu.
Segja má að þessi rannsókn hafi leitt í ljós miklar mannvistarleifar af fjölbreyttu tagi.
Read MoreUmhverfisvottun Vestfjarða
Um þessar mundir eru liðin 10 ár frá því að samþykkt var á Fjórðungsþingi að fara í umhverfisvottun sveitarfélaganna á Vestfjörðum. Í upphafi sá Lína Björk Tryggvadóttir um að halda utan um þá vinnu sem þarf að leggja í stefnumótun, gagnaöflun, fræðslu og fjármögnun á sérverkefnum.
Frá árinu 2018 hefur María Hildur Maack hjá NAVE verið verkefnastjóri umhverfisvottunarinnar í 33% starfi. Til að hljóta umhverfisvottun hjá EARTH CHECK (sem er eina umhverfisvottunarþjónustan sem býður úttektir og vottun fyrir sveitarfélög) þarf að sýna áhuga með því að setja fram stefnu og framkvæmdaáætlun. Þessu er fylgt eftir með visthæfari innkaupum, sparnað í vatns-orku og pappírsnotkun, verja hluta tekna til náttúruverndar og félagsþjónustu og fleira og fleira. Í umhverfisvottuninni er byggt á öllum stoðum sjálfbærrar þróunar: Umhverfisvernd, heilbrigðu hagkerfi (hringhagkerfi og verslun í heimabyggð) og félagslegu jafnræði (til dæmis að karlar og konur fái svipuð völd, hljóti sivpaða þjónustu, börn lifi við öryggi og aldraðir séu ekki afskiptir. Sveitarféögin þurfa að sýna fram á (með tölulegum gildum) að þeim fari fram ár frá ári. Til dæmis að sorpumfang minnki, meiri flokkun eigi sér stað, að eldsneyti sé sparað og að ekki séu notuð eiturefni t.d. á skordýr eða illgresi. Árið 2020 fékkst síðast umhverfisvottun og mega allir starfsmenn sveitarfélaganna nota sérstaka undirskrift til að sýna umhverfisvottun sveitarfélagsins. Hér má skoða framkvæmdaáætlun fyrir árin 2020-2025, en hún er endurskoðuð árlega.
Read MoreVöktun plantna á válista
Hafdís Sturlaugsdóttir, starfsmaður Náttúrustofunnar var með Pawel Wasowicz grasafræðingi hjá Náttúrufræðistofnun Íslands við að skoða þrjár tegundir sem vaxa á Vestfjörðum og eru á válista.
Farið var á skráða fundarstaði og kannað hvort plönturnar fyndust þar. Skráningar um vaxtarstaði geta verið mjög ónákvæmar þar sem fundarstaðir eru aðeins kenndir við tilgreinda bújörð. Oft er um að ræða gamlar skráningar, allt að 50-60 ára. Farið var meðal annars norður í Árneshrepp og í Ísafjarðardjúp. Tegundirnar fundust ekki á öllum skráðum fundarstöðum. Einnig komu snjóalög frá síðasta vetri í veg fyrir að hægt væri að komast á suma þeirra.
Tegundum á válista er skipt í átta flokka í samræmi við ástand. Stuðst er við alþjóðlegt kerfi IUCN. Flokkunin er allt frá því að plantan sé ekki í hættu og í það að vera útdauð á Íslandi, sjá upplýsingar á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar.
Þær tegundir sem skoðaðar voru í ferðinni voru hlíðaburkni (Cryptogramma crispa), skógelfting (Equisetum sylvaticum) og þyrnirós (Rosa spinosissima). Þessar tegundir eru allar skilgreindar í yfirvofandi hættu vegna þess að þær finnast á fáum stöðum á landinu og í litlum mæli á hverjum vaxtarstað. Vöktun er því mjög mikilvæg til að fylgjast með þróun á útbreiðslu válistaplantna. Meðfylgjandi eru myndir sem teknar voru í ferðinni.
Read More